Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 832  —  1. mál.
3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


Blekkingarleikur barnabóta.
    Í fylgiriti fjárlaga 2021 kemur fram að áætlaðar barnabætur árið 2023 verði 13,965 ma.kr. á verðlagi ársins 2021. Verðbólga ársins 2022 er áætluð 8,2% sem þýðir að sama áætlun um barnabætur fyrir árið 2023 á verðlagi 2022 ætti að vera 15,1 ma.kr. Gert er ráð fyrir því að verðbólga næsta árs verði 5,6% sem þýðir að verðlagsuppfærðar barnabætur árið 2023, til þess að halda í verðgildi þeirrar áætlunar um barnabætur sem gert var ráð fyrir árið 2021, ættu að verða 15,956 ma.kr.
    Nánar tiltekið, miðað við verðlag, þá jafngilda þeir tæpu 14 milljarðar sem lofað var í barnabætur í fjárlögum 2021 tæplega 16 milljörðum árið 2023. Ef staðið væri við þau loforð sem voru veitt í áætlunum fyrir árið 2021 þá hefði fjárlagafrumvarpið 2023 verið með fjárheimild upp á tæpa 16 milljarða króna í barnabætur.
    Í staðinn er ríkisstjórnin með tillögur um breytingar á barnabótakerfinu og segir að án þeirra breytinga hefðu barnabæturnar bara orðið 10,9 ma.kr. á árinu 2023 og vegna þeirra breytinga séu barnabætur því að hækka um 5 ma.kr. Einföld samlagning sýnir okkur hins vegar að 10,9 ma.kr. + 5 ma.kr. = 15,9 ma.kr., sem er meira að segja lægri upphæð en gert var ráð fyrir árið 2023 í fjárlögum 2021.
    Vandinn við barnabótakerfið er að án kerfisbreytinga úreldist kerfið smám saman. Eftir því sem árin líða og sleppt er að uppfæra skerðingarmörk fjölgar alltaf þeim sem eiga ekki rétt á barnabótum, einfaldlega vegna þess að launahækkanir skerða fólk út úr barnabótakerfinu. Það skiptir engu máli hversu miklar fjárheimildir eru settar í barnabæturnar ef kerfið er ekki uppfært jafnóðum með tilliti til launa- eða verðlagsþróunar.
    Það þýðir einfaldlega að þegar stjórnvöld lofa tæpum 14 milljörðum króna árið 2021 þá lofa þau einnig að uppfæra kerfið til þess að geta greitt út þá tæpu 14 milljarða sem þar er lofað því annars væri þetta innantómt loforð.
    Staðan núna er að stjórnvöld eru að klappa sjálfum sér á bakið fyrir að standa við loforð frá 2021 og kalla það hækkun um 5 milljarða. Hækkun sem væri óþörf ef stjórnvöld hefðu breytt kerfinu jafnóðum eins og þarf að gera til þess að það haldi verðgildi sínu. Það er því sjálfskapað vandamál stjórnvalda að barnabætur hefðu einungis orðið 10,9 milljarðar króna á næsta ári. Að kalla þessa leiðréttingu í átt að fyrri loforðum „hækkun um 5 milljarða“ er í besta falli blekking.

Blekkingarleikur stofnframlaga.
    Svipaða sögu má segja um stofnframlög vegna húsnæðis. Í nefndaráliti meiri hluta segir: „Þar má nefna að heildarumfang stofnframlaga til að auka framboð íbúða í almenna íbúðakerfinu verður samtals 4 ma.kr. á næsta ári.“ Í fjárlögum 2021, þar sem kemur fram áætlun fram til ársins 2023, var gert ráð fyrir tæpum 4 milljörðum í stofnframlög á hverju ári þangað til árið 2023. Þar er gert ráð fyrir 1,7 milljörðum. Það er sama upphæð og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu síðan í haust en breytingartillögur gera ráð fyrir 1,7 milljörðum aukalega fyrir 3. umræðu.
    Í tilfelli stofnframlaga má því segja að verið sé að hækka fjárheimildir miðað við loforð. En loforðið var að lækka stofnframlögin. Nú er verið að hætta við að lækka þau. Það er því ekki hægt að tala um sambærilega blekkingu og vegna barnabóta en það er heldur ekki nákvæmt að tala um hækkun heldur væri heiðarlegast að segja að verið sé að falla frá lækkun.
    Annar minni hluti harmar því að meiri hluti fjárlaganefndar taki undir framsetningu ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Það er mikilvægt að greina rétt og heiðarlega frá samhengi tillagna sem þing á að greiða atkvæði um. Í þessum tveimur málum verða sem sagt greidd atkvæði um hvort standa eigi við þegar gefin loforð vegna barnabóta annars vegar og hins vegar að hætta við loforð um lækkun á stofnframlögum til húsnæðismála. Það er sjálfgefið að standa við loforð um barnabætur og enginn getur hrósað sér fyrir slíkt. Það má hins vegar hrósa stjórnvöldum fyrir að hætta við lækkun á stofnframlögum þó að á sama tíma megi benda á að enn séu ekki komnar neinar lausnir á vandanum á húsnæðismarkaði. Að hætta við að lækka er ekki lausn en kemur að minnsta kosti í veg fyrir að stjórnvöld geri aðstæður verri.

Alþingi, 14. desember 2022.

Björn Leví Gunnarsson.